Flokkun úrgangs.

Hvað á að flokka?

Alla matarafganga og annan lífrænan úrgang frá heimilinu.

Hvernig á að flokka?

Í þennan flokk á setja alla matarafganga heimilisins og annan lífrænan úrgang sem til fellur á heimilinu. Dæmi um matarafgangar eru ávextir, grænmeti, brauð, eggjaskurn, kjöt, fiskur, bein. Einnig má setja tepoka, kaffikorg og kaffisíur, eldhúspappír og servéttur, blóm og plöntur. Þá er átt við afskorin blóm og minni plöntur, ekki það sem fellur til í garðinum. Það flokkast sem garðaúrgangur.

Eggjabakkar úr pappa mega líka fara þessa leið t.d. ef egg hefur brotnað í bakkanum og þ.a.l. ekki gott að setja hann með öðrum sléttum pappa. Hafa ber í huga að þessi listi er ekki tæmandi en gefur ágætis viðmið.

Öllum þessum úrgangi skal safnað í sérstaka poka sem eru niðurbrjótanlegir. Best er að nota maís- eða kartöflusterkjupoka (Biobag) sem fást þeir í flestum matvöruverslunum en einnig útvega sum sveitarfélög þessa poka. Pappírspoka má líka nota en þeir eiga samt frekar á hættu að rifna ef þeir blotna mikið. Mikilvægt er að nota alls ekki plastpoka undir þennan úrgang þar sem þeir jarðgerast ekki og geta ollið vandræðum í sjálfri jarðgerðarstöðinni!

Hvað má ekki fara með?

Efni sem eru skaðleg umhverfinu og brotna ekki auðveldlega niður s.s.plast, gler, málmar, sígarettustubba, ryksugupoka og allur annar heimilisúrgangur sem ekki telst lífrænn. Einnig er ekki æskilegt að setja hunda- og kattasand með þessum flokki nema þá að það sé í þessum maís/kartöflusterkjupokum. Og fyrir alla muni passið hnífapörin, þau valda verulegum skaða á vélbúnaði.

Hvar á að losa?

Í þeim sveitarfélögum þar sem söfnun á lífrænum heimilisúrgangi fer fram verða afhent lítil box til að safna lífræna úrgangi heimilisins í. Í þetta box þarf að setja í áður nefnda maís/kartöflusterkjupoka (Biobag). Boxið skal losað á 3-4 daga fresti eða oftar. Ef réttur poki er notaður og boxið haft lokað á milli notkunar á ekki að koma lykt við geymslu, t.d. í vaskaskáp eða á borði.

Þegar boxið er losað skal binda fyrir pokann og setja hann í brúna hólfið í sorptunnunni eða í brúnu tunnuna þar sem það á við. Varast skal að halda á pokunum einum og sér út í tunnu þar sem botninn gæti gefið sig, heldur skal fara með boxið út til losunar við tunnuna!