Hvað er molta ?

Við framleiðum tvær gerðir af moltu, Kraftmoltu , þar sem hráefnið er dýraleyfar og lífrænn heimilisúrgangur og Gróðurmoltusem eingöngu er unnin úr gróðurúrgangi og inniheldur engar dýraleyfar eða þessháttar úrgang.

Kraftmolta

Lífrænn áburður eða jarðvegsbætandi efni.

Kraftmolta verður til þegar lífrænn úrgangur rotnar og  breytist í það sem á íslensku hefur verið nefnt safnhaugamold. Þegar hún er fullstaðin eða rotnuð er hráefnið  orðið óþekkjanlegt, dökkt að lit, laust í sér og með lítilsháttar sætulykt.

Kraftmolta er ólík gróðurmold að því leyti að hún inniheldur ekki ólífræn efni í neinu magni, (t.d. sand) eins og moldin gerir. Því er um að ræða ræktunarefni sem inniheldur mun meira af nægtarefnum en moldin og getur því kallast áburðargjafi eða jarðvegsbætir, en getur þó ekki komið alveg í stað áburðar. Molta er næringarrík og eykur starfsemi allra lífvera í jarðveginum.

Í framleiðsluferlinu hjá okkur, hitnar efnið það mikið, yfir 70°, að varan telst hrein af óæskilegum síklum og gerlum. Illgresisfræ og þess háttar ósómi fyrirfinnst ekki í Moltunni

Kraftmolta er skráð sem áburður, undir nafninu Molta ,skráningarnúmer 2022

Sjá nánar um efnainnihald Kraftmoltu og Gróðurmoltu.

Framleiðsluferlið

Hráefnið fáum við frá kjötvinnslum, sláturhúsum og smávegis frá fiskvinnslum auk lífræns úrgangs frá heimilum. Þetta fer í gegnum hakkavél og blandast í framhaldinu við stoðefni, sem er að langmestu leiti timburkurl úr úrgangstimbri sem fellur til á okkar svæði. Auk timburkurlsins blöndum við samanvið pappír úr grenndargámum á Akureyri, sem við tætum á staðnum.
Þessi blanda fer síðan inní stórar jarðgerðartromlur og kemur út úr þeim 12 til 14 dögum síðar..
Efninu er síðan mokað í galta eða múga, verkunin heldur áfram úti og eftir 8 – 10 mánuði er moltan tilbúin til notkunar.

Notkunarsvið

Þar sem um lífrænt efni er að ræða gilda nokkuð stífar reglur um notkun. Þær eru í aðalatriðum til komnar vegna notkunar Moltu í landbúnaði, en snerta þéttbýlisbúann öllu minna.

Moltu má nýta á land sem síðan er unnið til túnræktar, kornræktar eða til ræktunar einærra fóðurjurta, enda sé borið á landið áður en jarðvinnsla fer fram þannig að moltan gangi niður í jarðveginn.
Einnig til dreifingar á gróðurlendi, til uppgræðslu eða skógræktar á lokuðum svæðum.
Ef nýta á land til beitar eða fóðurframleiðslu, má ekki bera á það moltu síðar en 1. Nóvember árið áður og skal landið friðað fyrir beit a.m.k. til 1. Apríl.
Moltu má ekki nota til ræktunar matvæla eða á vetnsverndarsvæðum.

Gróðurmolta

Gróðurmoltan er unnin á allt annan hátt en Kraftmoltan og er ekki háð eins ströngum reglum um notkun.
Hún er mikið nær því að geta kallast jarðvegur þar sem í henni eru ólífræn efni s.s. sandur og mold.

Framleiðsluferlið

Hún er unnin úr grasi og gróðurúrgangi og í henni eru engar dýraleifar. Vinnslan fer fram úti og kemst efnið aldrei í snertingu við vinnsluferli Kraftmoltunnar.
Grasi og gróðurúrgangi er blandað saman og mokað uppí múga. Þar hitnar efnið allt að 70°og við það drepst illgresisfræ að mestu og jafnvel öllu leiti.
Þessum múgum er velt reglulega og moltan er fullþroskuð á 12 – 18 mánuðum.

Notkunarsvið.

Gróðurmoltuna má nota til að blanda við mold sem fyrir er eða jafnvel í staðinn fyrir mold. Sé það gert er æskilegt að blanda hana með sandi ca. 15-20% Þó teljum við heppilegast að blanda henni ríkulega saman við mold sem fyrir er. Hana má nota við matjurtarækt.
Margir þekkja  og hafa sjálfir verið með safnhauga í görðum sínum, Gróðurmoltan er sambærileg við hefðbundna safnhaugamold.