Aukin vinnsla og þróunarstarf árið 2011

Móttekið magn úrgangs hjá Moltu ehf. jókst um tæp 20% á árinu 2011. Matvælastofnun gaf út rekstrarleyfi fyrir jarðgerð Moltu í júní sl.. Full heimild er þvi skv. núgildandi reglum til að nýta moltuna. Þá gekk Molta á árinu frá viljayfirlýsingu með norska fyrirtækinu HØST Verdien i Avfall AS um þróun afurða úr moltu.

Alls var tekið á móti 6.220 tonnum af úrgangi hjá Moltu á árinu 2011, á móti 5.250 tonnum árið 2010. Mestu munar um aukningu í heimilisúrgangi, en móttekið magn heimilisúrgagns var 1.010 tonn, smávægilegur samdráttur var í mótteknum sláturúrgangi. Árið 2011 er fyrsta heila árið í söfnun heimilisúrgangs á Akureyri en það verkefni hefur gegnið mjög vel. Þá hófst söfnun lífræns heimilisúrgangs í Eyjafjarðarsveit og í Grýtubakkahreppi á árinu. Molta hefur einnig í tæp tvö ár jarðgert lífrænan heimilisúrgang frá Dalvíkurbyggð og Sveitarfélaginu Skagafirði.

Rekstrarleyfi frá Matvælastofnun staðfestir að jarðgerð Moltu uppfyllir allar kröfur reglugerða til vinnslu lífræns heimilisúrgangs og sláturúrgangs. Jarðgerð Moltu er sú eina á landinu sem hefur slíka staðfestingu, sem þýðir einnig að full heimild er til að nýta moltuna sem áburð. Breytingar sem eru fyrirhugaðar eru á reglum um meðferð sláturúrgangs og dýraleifa eru vissulega nokkur ógnun við áform um nýtingu moltu til áburðar. Starfshópur hagsmunaaðila, Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur unnið að því allt síðastliðið ár að ná samstöðu um ásættanlegt reglugerðaumhverfi. Hyllir nú undir framtíðarlausn í þessu máli, þar sem ótti við riðusmit togast á við umhverfismarkmið og nýtingu mikilvægra næringarefna úr úrgangi. Miðað við móttekið magn á árinu 2011 hafa fallið til rúm 3.000 tonn af gæða moltu á árin og því ljóst að þónokkur verðmæti liggja og bíða nýtingar á þroskunarplönum Moltu.

Í september síðastliðinn hófust tilraunir með að nýta pappír sem stoðefni í jarðgerðina. Þessar tilraunir lofa góðu og hefur Molta samið við Akureyrarkaupstað um að taka dagblöð sem safnast í grenndargáma á Akureyri til endurvinnslu . Það er því mjög mikilvægt að íbúar á Akureyri, sem hafa staðið sig mjög vel í flokkun úrgangs, passi upp á að ekki berist aðskotahlutir, plast eða óflokkaður úrgangur í dagblaðagámana. Dagblöðin eru nú orðin mikilvæg sem hráefni í áburð sem framleiddur er hér á Eyjafjarðarsvæðinu.