Um 7.600 tonn af sorpi og öðrum úrgangi féllu til frá heimilum á Akureyri í fyrra. Stór hluti er endurunninn, þar af hátt í tvö þúsund tonn af lífrænum úrgangi í jarðgerðarstöð Moltu.
Í fréttum RÚV í síðustu viku var fjallað um nýjar tölur Hagstofu Evrópusambandsins um úrgangslosun. Þar kemur fram að einungis þrjár þjóðir í Evrópu losi meira af sorpi á hvern íbúa en Íslendingar.
Samkvæmt tölum frá 2017 er Ísland í fjórða sætinu yfir magn úrgangs, um 656 kíló á hvern íbúa. Þarna er átt við heildarmagn, þó að mestu leyti frá heimilum, burtséð frá því hvað verður um sorpið, hvort það er urðað, endurunnið og þá hvernig. Meðaltalið í Evrópusambandinu eru 486 kíló á hvern íbúa.
En hvernig er þessu háttað á Akureyri?
Í fyrra féllu til um 7.600 tonn af sorpi frá heimilum á Akureyri. Það gera um það bil 400 kíló á hvern íbúa.
Þar af fara um 2.800 tonn af úrgangi í urðun í Stekkjarvík, eða um 36%. Flest annað er endurunnið á einn eða annan hátt.
Akureyringar hafa á undanförnum árum náð mjög góðum árangri í flokkun og endurvinnslu á pappa, drykkjarumbúðum, plasti og málmum. Þar að auki hafa um 80% heimila á Akureyri, í yfir tíu ár, flokkað allan lífrænan úrgang og skilað í Moltu.
„Nýjasta dæmið á Akureyri er líklega græna trektin þar sem íbúar geta með einföldum hætti losað sig við alla matarolíu og dýrafitu með þægilegum hætti,” segir Guðmundur Haukur Sigurðarson, framkvæmdastjóri Vistorku.
Guðmundur bendir á að tækifærin séu víða og enn sé töluvert svigrúm til þess að draga úr urðun.