Heimild veitt til að nota moltu

Á nýafstaðinni ráðstefnu í tengslum við aðalfund FENÚR (Fagráðs um endurnýtingu og úrgang) hélt Halldór Runólfsson yfirdýralæknir fyrirlestur undir yfirskriftinni “Lög og reglur um sláturúrgang og dýraúrgang”. Í máli Halldórs kom fram að nýting moltu verði heimiluð með nýrri reglugerð.Í erindi sínu fór Halldór m.a. yfir vinnu sem verið hefur í gangi varðandi nýtingu afurða frá endurvinnslu á sláturúrgangi og lífrænum heimilisúrgangi og þann ágreining sem uppi hefur verið milli endurvinnsluaðila og Matvælastofnunar um heimildir til nýtingar.

Halldór greindi frá tillögum Matvælastofnunar varðandi reglugerðarákvæði um nýtingu þessara afurða. Áætlað er að samkvæmt reglugerðinni sem tekur gildi 1. maí 2012 verði heimilt að nýta moltu og kjötmjöl í akra og nýræktir sé það unnið saman við jarðveginn (plægt eða tætt) og engar hömlur verði á fóðuröflun eða beit á þvi landi. Ef nota skal moltu eða kjötmjöl sem áburð á tún eða bithaga verði að dreifa fyrir 1. desember, þannig að það líði a.m.k. einn vetur áður en tún er slegið eða bithagi nýttur til beitar.

Molta ehf. bindur miklar vonir við að molta frá jarðgerðarstöðinni verði gott innlegg í ræktun á Eyjafjarðarsvæðinu og víðar. Kornbændum og öðrum sem vilja nýta moltu nú í vor er bent á að hafa samband við Moltu ehf. í síma 8620453 til að fá frekari upplýsingar.