Lyktarvarnir hjá Moltu ehf.

Við jarðgerð er óhjákvæmilegt að það myndist ólykt af ferlinu þegar niðurbrot á sér stað. Hjá Moltu hefur verið notast við að blanda útblástur með ósoni til þess að hreinsa burt lyktina. Í upphafi var notast við þann ósonbúnað sem fylgdi tæknibúnaðinum sem notaður er við jarðgerðarferlið. Fljótlega kom í ljós að ýmsu var ábótavant. Mikil tregða var í lögnum loftræstingarinnar, óloft í stöðinni og vinnuaðstæður alls ekki góðar. Ráðist var í lagfæringar og endurbætur gerðar sem skiluðu árangri en lyktarmengun var samt sem áður oft nokkuð mikil og nágrannar kvörtuðu skiljanlega. Í framhaldi var leitað ráðgafar hjá Raf ehf. sem hafa mikla reynslu af lyktarvörnum með óson tækninni. Leigður var stærri ósonbúnaður sem virkaði ágætlega en samt var ennþá oft á tíðum ólykt kringum stöðina og áfram komu kvartanir undan því. Í ársbyrjun 2014 var ákveðið að setja upp mun öflugri tækni frá Raf ehf. Sá búnaður var gangsettur í maí það ár og hefur hann staðið fyllilega undir væntingum. Til viðbótar við ósonbúnaðinn var sett vatnsúðakerfi í útblásturinn sem hreinsar mikið af smáum rykögnum. Eftir allar þessar lagfæringar hafa engar kvartanir borist til Moltu vegna lyktarmengunar.
Ósonbúnaðurinn framleiðir í dag um 400 gr/klst af ósoni sem blandað er í útblásturinn frá stöðinni. Það er okkar von að nú sé öllum þeim vandræðagangi með slæma lykt frá starfseminni úr sögunni. Vill Molta ehf. biðja hlutaðeigandi afsökunar á óþægindunum sem starfsemin hefur valdið þeim og einnig þakka jafnframt fyrir þolinmæðina.
Með því að smella á linkinn hér fyrir neðan má sjá kynningarmyndband frá Raf ehf um ósonbúnaðinn sem notaður er hjá okkur.
https://www.youtube.com/embed/GIOlg_Qq_jo