Raunveruleg endurvinnsla í Eyjafirði

Jarðgerð lífræns úrgangs er raunveruleg endurvinnsla. Reyndar er þó aðeins hægt að tala um að jarðgerð sé endurvinnsla ef hægt er að nýta afurðina, moltuna, sem áburð eða til jarðvegsgerðar. Starfsmenn Moltu ehf. eru bjartsýnir á að ásættanleg lausn varðandi heimild til nýtingar moltu í landbúnaði til sé í sjónmáli.

Jarðgerðarstöð Moltu endurvinnur nú nánast allan lífrænan heimilisúrgang af Eyjafjarðarsvæðinu og frá Sauðárkróki ásamt öllum sláturúrgangi af Eyjafjarðarsvæðinu. Þar fyrir utan tekur Molta á móti dagblöðum sem safnast í grenndargáma á Akureyri til endurvinnslu, en Molta hefur hlotið staðfestingu Úrvinnslusjóðs sem ráðstöfunaraðili vegna endurvinnslu pappa- og pappírsumbúða.

Það hlýtur að hvetja íbúa hér á svæðinu til flokkunar að hluti þess úrgangs sem verið er að flokka er endurunninn hér í Eyjafirði. Með því er verið að skapa verðmæti sem bændur og aðrir sem leggja stund á jarðrækt geta notið góðs af.

Mjög mikilvægt er að vanda flokkun á þeim úrgangi sem fer til jarðgerðar. Aðskotahlutir og aðskotaefni s.s. gler, málmar og plast eru eitur í beinum jarðgerðarfólks. Glerbrot í moltunni skapa hættu fyrir þá sem hugsanlega nýta moltuna og handfjalla hana t.d. við gróðursetningu. Plastið lifir jarðgerðarferlið af og getur því fokið og valdið óþrifum.

Árangur af flokkun úrgangs hér á Eyjafjarðarsvæðinu hefur verið mjög góður og honum verðum við að viðhalda. Hér eftirfarandi eru nokkur atriði sem gott er hafa í huga við flokkun.

  • Pössum hnífapörin, það er furðu algengt að það slæðist hnífapör í lífræna heimilisúrganginn. Þetta veldur óþarfa sliti á vélbúnaði og getur skapað hættu fyrir þá sem handleika moltuna síðar.
  • Notum alltaf lífrænt niðurbrjótanlega poka undir lífræna heimilisúrganginn. Jafnvel aumustu plastpokar lifa jarðgerðina af og fjúka síðan burt.
  • Gler á alltaf að fara í „glergáma“eða í annan skilgreindan farveg fyrir gler. Það á alls ekki heima í jarðgerð eða pappírsendurvinnslu. Sama á við um málma.
  • Berum virðingu fyrir umhverfi okkar, okkur sjálfum og þeim sem fást við úrganginn okkar, hendum ekki almennu sorpi í endurvinnslugámana.